Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir vegna kosninga

Úrskurður í máli nr. DMR19040174

 

 

Ár 2019, 31. maí er í dómsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. DMR19040174

 

Kæra Vigdísar Hauksdóttur

á ákvörðun

sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

 

 

  1. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

    Þann 29. apríl 2019 móttók ráðuneytið kæru Vigdísar Hauksdóttur (hér eftir nefnd kærandi), á ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. febrúar 2019 vegna kosninga til borgarstjórnar Reykjavíkur sem fram fóru hinn 26. maí 2018. Í hinni kærðu ákvörðun segir m.a. ,,… er það niðurstaða Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að kæran verði hvorki tekin til efnismeðferðar né úrskurðar eins og krafist er. Kærunni er vísað frá.“

     

    Af kæru verður ráðið að þess sé krafist að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun sýslumanns.

     

    Ákvörðunin er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt sama lagaákvæði.

     

     

  2. Ákvörðun sýslumanns

     

    Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

     

    Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu móttók kæru þína dags. 14. febrúar 2019 þann sama dag, en þar segir:

     

    „Ég undirrituð Vigdís Hauksdóttir kæri borgarstjórnarkosningar sem fóru fram hinn 26. maí 2018.

    Samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr.  5/1998, er kærufrestur 7 dagar að afliðnum kosningum. Eðli máls samkvæmt er sá frestur löngu liðinn, en nú hefur Persónuvernd gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og aðdraganda kosninganna sbr. úrskurður sem birtur var Reykjavíkurborg hinn 7. febrúar sl. og lítur kærandi svo á að nýr kærufrestur hafi byrjað að líða þann dag.      

     

    Í XIV. kafla sveitarstjórnalaga segir í 93. gr. um kosningakærur: Sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu skal afhenda kæru sína hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.

    Í ljósi framangreinds afhendi ég Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu kæru þessa til efnismeðferðar og úrskurðar.“

    Kærandi óskaði eftir fresti til að leggja fram greinargerð vegna kærunnar og var hann veittur til 18. febrúar 2019. Þann dag barst sýslumanni greinargerð kæranda.

     

    I.

    Ákvæði 1. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 kveður á um almenna heimild til þess að kæra sveitarstjórnarkosningu í heild sinni. Ekki er að finna í ákvæðum laganna heimildir til þess að kæra einstakar ákvarðanir eða ráðstafanir sem gerðar eru í aðdraganda eða við framkvæmd kosninganna.

     

    II.

    Kærufrestur samkvæmt ákvæði 1. mgr. 93. gr. laganna er settur sjö dögum frá því að úrslitum kosninga er lýst, og er hafið yfir allan vafa að sá kærufrestur er löngu liðinn. Þá er  hvergi að finna heimild til að framlengja kærufrestinn hvorki í lögunum sjálfum né í athugasemdum með frumvarpi til laganna. 

     

    III.

    Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að kæran verði hvorki tekin til efnismeðferðar né úrskurðar eins og krafist er. Kærunni er vísað frá.

     

    Ákvörðun þessi er kæranleg til dómsmálaráðuneytisins sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

     

     

  3. Málsástæður kæranda

     

    Í kæru segir að kærandi hafi þann 14. febrúar 2018, lagt fram kæru hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna borgarstjórnarkosninganna sem fram fóru í Reykjavík hinn 26. maí 2018. Segir jafnframt að kæran sé lögð fram í kjölfar úrskurðar Persónuverndar sem kveðinn var upp hinn 7. febrúar 2019, en í úrskurðinum séu gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík sem fram fóru á síðasta ári. 

    Vísar kærandi til laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 þar sem segir að kærufrestur sé sjö dagar að afliðnum kosningum og bendir á að sá frestur sé löngu liðinn, en í ljósi alvarlegra athugasemda Persónuverndar við framkvæmd og aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík líti hún svo á að nýr kærufrestur hafi byrjað að líða við uppkvaðningu úrskurðar Persónuverndar.

     

     

  4. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Um kosningakærur vegna kosninga til sveitarstjórna er fjallað í lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 (hér eftir nefnd kosningalög). Í XIV. kafla kosningalaga er fjallað um kosningakærur, og er 93. gr. laganna svohljóðandi:

Sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu skal afhenda kæru sína hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. 

Viðkomandi sýslumaður skal skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið þegar er honum hefur borist kæra. Skal leita umsagnar yfirkjörstjórnar um kæru og skal hún láta uppi álit sitt innan viku frá því að hún fékk kæruna og kjörnefnd kveða upp úrskurð sinn innan viku þar frá. 

Úrskurði nefndarinnar má skjóta til ráðuneytisins og skal tilkynning um kæruna komin til ráðuneytisins innan viku og skjöl þau, er kærunni kunna að fylgja, sett í póst innan sama tíma. 

 

Kæruheimild vegna afstaðinna kosninga til sveitarstjórna er í 1. mgr. 93. gr. kosningalaga. Í 2. mgr. ákvæðisins er lagt fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið, hafi honum borist kæra. Úrskurði þeirrar nefndar má síðan skjóta til ráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 93. gr. laganna.

 

Í athugasemdum með ákvæðinu segir að það sé efnislega samhljóða 1.- 4. mgr. 37. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en í athugasemdum með því ákvæði í frumvarpi sem varð að lögum nr. 8/1986 segir m.a:

Nefndarmenn eru á einu máli um að það fyrirkomulag, sem nú er, að nýkjörin sveitarstjórn úrskurði um lögmæti kosninga, sé óheppilegt þar sem ótryggt sé að hún fái litíð hlutdrægnislaust á málavexti. Rætt hefur verið um að fela fráfarandi sveitarstjórn þetta verkefni, umboðsmanni ríkisins í héraði með eða án „meðdómenda" eða yfirkjörstjórn samkvæmt 9. gr. laga um alþingiskosningar. Hér er gerð tillaga um að viðkomandi yfirvald, þ. e. bæjarfógeti eða sýslumaður, skipi þriggja manna nefnd til að gegna þessu starfi einungis í þeim tilvikum, þegar gildi kosninga er dregið í efa. Með þessu móti ætti að vera hægt að tryggja að þeir, sem fara með þetta úrskurðarvald, séu fullkomlega óhlutdrægir….. Ákvæðum þessum er ætlað að tryggja að óvissuástand, sem skapast við það að kosningar eru kærðar, valdi sem minnstum erfiðleikum

 

Eins og ákvæði 93. gr. laganna hljóðar er sýslumanni gert skylt að skipa nefnd til að úrskurða um kæruefni er varðar gildi sveitarstjórnarkosninga. Verður ekki séð að sýslumanni sé falið að meta það hvort kæran uppfylli formleg skilyrði til að verða tekin til meðferðar af nefndinni. Um málsmeðferð kærumála hjá nefndinni gilda stjórnsýslulög, en í því felst m.a. að taka afstöðu til þess hvort kæra telst framkomin innan kærufrests. Eins og sjá má af athugasemdunum hér að framan var tilgangur ákvæðisins að finna leið til þess að tryggja að, sé gildi kosninga dregið í efa, að fyllsta hlutleysi sé gætt við úrskurð slíkra ágreiningsefna. Í þessu sambandi má nefna að kæra um gildi kosninga getur lotið að athöfnum sýslumanns, sem annast einn þátt í framkvæmd kosninganna, og því ljóst að það er í andstöðu við tilgang ákvæðisins að sýslumaður taki afstöðu til formsatriða, s.s. kærufrests.

 

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að valdheimild sýslumanns hafi ekki staðið til þess að taka afstöðu til þeirrar kæru sem kærandi lagði fram hjá embætti hans hinn 14. febrúar 2019. Um var að ræða kæru sem lögð var fram af hálfu kæranda að afstöðnum kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík og verður ekki ráðið annað af kærunni en verið sé að kæra kosningarnar í heild sinni. Því bar sýslumanni að fara með kæruna skv. 93. gr. kosningalaga. Bar sýslumanni á grundvelli 2. mgr. 93. gr. kosningalaga að skipa nefnd til þess að úrskurða um kæruefnið og er það hlutverk þeirrar nefndar að taka ákvörðun um það hvort kæran sé tæk til meðferðar m.a. með tilliti til þess hvort kærufrestur sé liðinn.

 

 

Með vísun til alls framangreinds verður ákvörðun sýslumanns um að vísa frá þeirri kæru sem kærandi lagði fram hinn 14. febrúar sl. felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið, sbr. 2. mgr. 93. gr. kosningalaga.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun sýslumanns um að vísu frá kæru Vigdísar Hauksdóttur, sem hún lagði fram hinn 14. febrúar sl., er felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til að taka afstöðu til kæruefnisins, sbr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

 

 

____________________________

 

 

Úrskurður þessi er undirritaður og sendur í ábyrgðarbréfi.

 

Fyrir hönd ráðherra

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum